Útvalinn eða bara einfaldur forseti?

George W. Bush Bandaríkjaforseti
George W. Bush Bandaríkjaforseti Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur greint frá því að hann líti ekki svo á að trú hans á að Guð hafi skapað heiminn stangist á við vísindalegar sannanir fyrir þróunarkenningunni.

Bush sagðist í sjónvarpsþættinum "Nightline" á ABC sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi sennilega ekki vera bókstafstrúarmaður þegar komi að lestri Biblíunnar en að hann telji þó að fólk geti lært margt af lestri hennar.„Ég held að hægt sé að sameina þetta tvennt,” sagði hann er hann var spurður um þróunarkenninguna.

„Þú ert að fá mig langt út fyrir mitt svið hérna. Ég er bara einfaldur forseti. En það sem ég held er að Guð hafi skapað jörðina, skapað heiminn. Ég held að sköpun heimsins sé svo dularfull að það hafi þurft eitthvað yfirnáttúrulegt til, eitthvað jafn stórt og Almættið og ég tel ekki að það sé ósamræmanlegt vísindalegum sönnunum fyrir því að þróun hafi átt sér stað. Ég trúi því á þróun útskýri ekki leyndardóma lífsins til fulls.”

Spyrillinn Cynthia McFadden spurði Bush einnig að því hvort hann teldi Biblíuna bókstaflega sanna. „Þú veist, sennilega ekki. Nei, ég er ekki bókstaftrúarmaður en ég tel okkur geta lært margt af henni. Ég trúi því hins vegar að Nýja testamentið sé, hafi, þú veist þau mikilvægu skilaboð fram að færa að Guð hafi sent son sinn,”  svaraði hann. 

„Það er erfitt fyrir mig að bera vitni eða sanna leyndardóma hin Almáttuga í lífi mínu. Það eina sem ég get sagt er að ég snéri aftur til trúarinnar og ég hætti að drekka skömmu síðar og bað um hjálp. Ég var maður sem fór í eins skrefa meðferð."

Þá sagðist hann oft vera spurður að því hvort hann teldi sig hafa verið útvalinn af Guði til að verða forseti Bandaríkjanna. „Ég get bara ekki rætt það,” sagði hann. „Ég er ekki það öruggur í þekkingu minni á, þú veist, Almættinu, til að geta sagt: Já, Guð valdi mig af öllum.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert