Mótmælendur köstuðu eldsprengjum á lögreglumenn sem stóðu fyrir framan gríska þinghúsið í dag. Til að bæta gráu ofan á svart hefur verið lýst yfir allsherjarverkfalli sem hefur lamað Grikkland og aukið þrýstinginn á ríkisstjórnina. Óeirðirnar undanfarna daga eru þær verstu í landinu í áratugi.
Þúsundir mótmælenda gengu fylktu liði að þinghúsinu í dag til að taka þátt í fjöldafundi þar sem rætt var um efnahags- og félagsmál. Fundurinn leystist fljótlega upp í átök. Lögreglan skaut táragasi í átt að mótmælendum sem svöruðu með því að kasta grjóti, glerflöskum og spýtum.
Costas Karamanlis, forsætisráðherra Grikklands, greindi í dag frá því að ríkið muni styðja fjárhagslega þau fyrirtæki sem hafa orðið fyrir skemmdu í átökunum sl. fimm daga. Hann hét því jafnframt að vernda íbúa landsins gegn ofbeldi. Karamanlis sagði hins vegar ekki frá því hvernig hann hygðist gera það.
Heimildarmenn Reuters-fréttastofunnar innan ríkisstjórnarinnar hafa vísað þeim orðrómi á bug að stjórnvöld séu að íhuga að setja á neyðarlög.
„Ríkisstjórnar morðingjar,“ hrópuðu mótmælendur í dag, en þeir eru mjög reiðir yfir því að lögreglan hafi skotið unglings pilt til bana á laugardag. Atburðurinn var kveikjan að uppþotunum, en auk morðsins þá eru íbúarnir búnir að fá nóg af pólitískum hneykslismálum, auknu atvinnuleysi og fátækt.
Að sögn sjónarvotta skaut lögreglumaðurinn piltinn til bana af yfirlögðu ráði. Lögmaður hans segir hins vegar að rannsókn á vettvangi hafi leitt í ljós að þetta hafi verið slysaskot. Byssukúlan hafi endurkastast og hæft piltinn.
Óeirðir hafa geisað í a.m.k. 10 borgum og er kostnaðurinn talinn nema um 200 milljónum evra, en þá er aðeins tekið tillit til þeirra fyrirtækja og verslana sem hafa skemmst í átökunum.
Fram kemur að 565 verslanir í Aþenu, höfuðborg Grikklands, hafi skemmst mikið eða hafi eyðilagst í óeirðunum.