Barack Obama verðandi forseti Bandaríkjanna er ekki einu sinni tekinn við embættinu þegar hann fær hneykslismál í fangið.
Obama er ekki sakaður um eitt eða neitt. Sú staðreynd hins vegar að ríkisstjóri Illinois, Rod Blagojevich, flokksbróðir hans, sé ákærður fyrir að hafa reynt að selja öldungardeildarþingsæti Obama sem er nú á lausu, gefur óhjákvæmilega pólitískum andstæðingum hans tækifæri til að freista þess að tengja hann við hneykslið. Ýmsar spurningar svífa í loftinu. Rannsóknin er enn í gangi. Og áhrif málsins á Obama liggja alls ekki fyrir á þessari stundi.
Áberandi var strax á þriðjudagskvöld hvernig hann sjálfur kappkostaði að fjarlægja sig frá málinu og sagði: „Ég hef ekki verið í neinum tengslum við ríkisstjórann eða skrifstofu hans, og vissi ekki hvað þar var í gangi“ varðandi mögulegt möndl Blagojevich með eftirmann hans á þingi.
Í viðtali sem birtist í Chicago Tribune og Los Angeles Times á miðvikudag ítekaði Obama þetta atriði. „Ég hef aldrei rætt öldungadeildarþingsætið við ríkisstjórann.“
Hann vildi hins vegar ekki svara spurningum um það hvort hann vissi af einhverjum slíkum samtölum milli ríkisstjórans og aðstoðarmanna hans sjálfs, þar á meðal verðandi starfsmannastjóra Rahm Emanuel. „Rannsóknin stendur yfir,“ sagði Obama, „Ég tel ekki við hæfi að tjá mig um málið umfram þær staðreyndir sem ég veit.“
Ríkissaksóknari norðanverðs Illiniosríkis, Patrick Fitzgerald, sagði í Chicago í dag að saksóknarar hefðu engin gögn um að Obama hefði haft einhverja vitneskju um málið. Og Blagojevich sjálfur gaf beinlínis í skyn í hljóðritum símtölum sem embættið hefur undir höndum að hann ætti ekki von á mikilli aðstoð frá Obama og liðsmönnum hans - þaðan fengi hann ekkert nema þakklæti.
Repúblikanar segja Obama skulda frekari skýringar
Repúblikanar reyna þó hvað þeir geta til að draga Obama inn í hneykslið. Ummæli Barack Obama kjörins forseta eru í besta falli ófullnægjandi,“ er haft eftir talsmanni Repúblikanaflokksins, Robert Duncan.
Þessir tveir stjórnmálamenn frá Illinios, Obama og Blagojevich, hafa þó aldrei verið nánir og að miklu leyti starfað hvor í sinni fylkingunni innan Demókrataflokksins í ríkinu. Óbeit Blagojevich á Obama fer ekki á milli mála á hljóðritununum í fórum alríkislögreglunnar en þar kallar hann liðsmenn Obama öllum illum nöfnum.
Þrátt fyrir þetta er málið óþægilegt fyrir Obama að hneykslið kemur upp aðeins sex vikum fyrir innsetningu hans sem forseta meðan hann er á fullu að mynda nýja stjórn sína og fást við fjármálakreppuna. Um leið varpar málið ekki sérlega björtu ljósi á stjórnmál Chicago-borgar sem löngum hafa verið alræmd og Obama hefur lagt allt kapp á að halda í hæfilegri fjarlægð frá sér.
Samt gæti áframhaldandi rannsókn tengt Obama málinu. Svo virðist sem vinkona Obama, Valerie Jarrett, sem verður ráðgjafi hans í Hvíta húsinu, sé persóna sem ítrekað er nefnd í réttarskjölum sem Frambjóðandi 1 - „Candidate 1“ og sögð sú sem Obma hafi viljað í lausa þingsætið. Reyndar kemur einnig fram í gögnunum að hún hafi sjálf tekið sig af umsóknarlistanum. Það er hins vegar Frambjóðandi 5 sem Blagojevich gælir við að muni greiða sér 500 þúsund dali fyrir að fá þingsætið að því er heyrist á hljóðritununum.
Sumir liðsmenn tengjast báðum
Þótt nánustu samstarfsmenn Obama í Illinois séu allt annar hópur en þeir sem starfa í kringum Blagojevich eru þar þó tvær undantekningar. Bæði Obama og Blagojevich hafa fengið umtalsverð fjárframlög og stuðning frá kaupsýslumanni að nafni Antion „Tony“ Rezko sem bíður dóms eftir að hafa verið fundinn sekur í júní sl. um að hafa í samvinnu við stjórn Blagojevich lagt á ráðin um umtalsverðar mútur. Obama er sömuleiðis mjög tengdur forseta öldungadeildar Illinois þings, Emil Jones, sem sumir segja pólitískan guðföður Obama, en hann hefur einnig verið einhver helsti stuðningsmaður ríkisstjórans á ríkisþinginu.
Að minnsta kosti einn af helstu aðstoðarmönnum Obama, Michael Strautmanis, vann áður fyrir Blagojevich. Obama hefur skipað hann til að starfmannastjóri þeirrar deildar sem annast innri tengsl forsetaembættis og ríkisstofnana svo og almannatengsl. Hann er innfæddur Chicagobúi og starfaði fyrir Blagojevich sem lögfræðilegur ráðunautur þegar ríkisstjórinn sat á ríkisþinginu og vann fyrir hann þegar Blagojevich vann kosningarnar um ríkisstjóraembættið 2002. Ekkert hefur þó komið fram sem tengir Strautmanis við málið sem nú er komið upp.