Verjandi grisks lögreglumannsins, sem ákærður hefur verið fyrir að verða 15 ára pilti að bana í Aþenu á laugardag, segir að rannsókn hafi leitt í ljós að um hafi verið að ræða slysaskot. Kúlan, sem varð piltinum að aldurtila, hafi endurkastast með þessum afleiðingum.
Tveir lögreglumenn voru handteknir og ákærðir vegna málsins. Annar var ákærður fyrir manndráp og hinn fyrir aðild að manndrápi. Skotum var hleypt af þegar hópur unglinga grýtti bíl, sem lögreglumennirnir tveir voru í. Daglegar óeirðir hafa verið í Aþenu og fleiri borgum í Grikklandi síðan.
Að sögn fréttavefjar BBC hefur fjölskylda piltsins ráðið óháðan sérfræðing til að fara yfir gögn í málinu til að tryggt verði að ekki verði um yfirhilmingu af neinu tagi.