Svipmynd: Rod Blagojevich - umbótamaður sem varð spillingu að bráð

Ríkisstjóri Illinois, Rod Blagojevich, sem handtekinn var í gær fyrir spillingu, með því m.a. að reyna að hagnast á því að vera í að stöðu til að skipa á þingmann í öldungadeildarsætið sem losnar þegar Barack Obama heldur til Washington, var upphaflega kosinn í starfið sem umbótamaður.

Hann var kjörinn í embætti ríkisstjóra Illinois árið 2002 með fyrirheiti um að endurreisa virðingu embættisins eftir að fyrirrennarinn, George Ryan, hafði verið dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi fyrir fjársvik af ýmsu tagi. Hann varð þá fyrsti demókratinn frá því árið 1977 til að gegna embætti ríkisstjóra.

Blagojevich sem nú er 51 árs að aldri og kunnur aðdáandi Elvis Prestley, er sonur serbísks stálverkamanns. Hann var tiltölulega ungur þegar hann náði kjöri,  þótti hafa útlitið með sér og var með sterkt bakland í stjórnmálum, því að tengdafaðir hans er Richard Mell, áhrifamaður í borgarmálum í Chicago.

Sjálfur var Blagojevich fulltrúi norðurhluta Chicago á ríkisþinginu áður en hann bauð sig fram og þótti rísandi stjarna.Þó að örla þætti á tækifærismennsku í athöfnum hans kom hann ýmsum umbótamálum í höfn á fyrra kjörtímabilinu. Demókratar komu þá í gegn ákvæðum um lágmarkslaun í ríkinu, löggjöf um jöfn laun karla og kvenna, og framsækna áætlun um að ríkið semdi fyrir hönd eldri borgara um lyfjaverð til að ná kostnaðinum niður, að því er fram kemur í The Guardian.

Umbætur voru og gerðar á lögum um dauðarefsingar, þar á meðal tímamótaákvæði sem Barack Obama, þá nýorðinn öldungadeildarþingmaður, átti þátt í að koma í gegn en þar er krafist að allar yfirheyrslur í morðmálum skuli hljóðritaðar.

Sígur á ógæfuhliðina

Ríkisstjórinn naut velgengninnar og farinn að hafa nokkuð háar hugmyndir um sjálfan sig - lét sig jafnvel dreyma um forsetaframboð 2016. En seinna kjörtímabilið tók að síga á ógæfuhliðina, og Blagojevich einangraðist æ meir, einkanlega frá samherjum sínum á ríkisþinginu og Mell, tengdaföður sínum og pólitískum læriföður.

Til sögunnar kom harðskeyttur ríkissaksóknari fyrir norðanvert Illinois, Patrick Fitzgerald að nafni, og hóf að rannsaka sitthvað misjafnt í stjórnsýslu ríkisins - ásakanir um ráðningamisferli, misbeitingu valds, hyglun og síðast en ekki síst ásakanir um það sem Bandaríkjamenn kalla „pay-to-play“ og ef til vill má þýða sem greitt-fyrir-greiðann.

Fyrr á árinu var réttað yfir Antoin „Tony“ Rezko, nánum samverkamanni ríkisstjórans og einhverjum helsta stuðningsmanni í fjáröflun fyrir kosningasjóð hans. Framburður margra var ekki gæfulegur fyrir Blagojevich því að þar var ítrekað vitnað í samtöl ríkisstjórans þar sem hann vildi ívilna ákveðnum verktökum gegn greiðslu í pólitíska sjóði.

Næst var Christopher Kelly sem áður hafði verið helst fjáraflamaður Blagojevich dæmdur fyrir skattsvik sem tengdust tíðum ferðum hans í spilavíti Las Vegas. Á sama tíma greindi Chicago Tribune frá því að fasteignaviðskipti konu Blagojevich, Patricia, væru til skoðunar sem hluti af rannsókn á greitt-fyrir-greiða-máli.

Rannsóknarlögreglumenn komust svo á hæla ríkisstjórans sjálfs þegar þeir lögðu hald á gögn viðskiptamanns John nokkurs Wyma, sem var náinn samverkamaður Blagojevich. Viðskiptamaðurinn hafði fengið hagstæða undanþágu frá reglum en greitt um leið 25 þúsund dali í sjóði Blagojevich.

Þingsæti á 500 þúsund dali

Wyma þessi hafði um eitt skeið verið starfsmannastjóri Blagojewich þegar hann sat á þingi Illinois, en gekk nú til samstarfs við þá sem rannsökuðu mál ríkisstjórans og það aftur leiddi til leynilegrar hljóðritunar á símtölum Blagojewich sem varð til þess að hann var handtekinn í gær.

Samkvæmt frásögn The New York Times kom m.a. fram á upptökunum að Blagojevich hældi sér af því að hann gæti mögulega fengið fé frá áhugasömum aðila, sem hann kallaði „Candidate 5“ fyrir þingsætið sem losnaði við kjör Obama sem forseta og fárhæðin sem nefnd var hljóðaði upp á 500 þúsund pund.

Jafnvel hörðustu andstæðingar Blagojevich voru furðu lostnir þegar fréttist af handtökunni og ákæruatriðum. Cindi Canary, framkvæmdastjóri baráttuhóps fyrir stjórnmálalegum umbótum í Illinios segist í New York Times næstum því hafa fallið um koll. „Ég varð orðlaus og miður mín. Í öllum þeim milljón ákærum sem ég hef lesið á síðasta ári man ég ekki eftir neinu eins viðurstyggilegu og þessu.“

Blagojevich, Obama veerðandi forseti og borgarstjóri Chicago, Richard Daley á …
Blagojevich, Obama veerðandi forseti og borgarstjóri Chicago, Richard Daley á kosningafundi í apríl sl. Reuters
Teikning gerð þegar ríkisstjóri Illinois Blagojevich kom fyrir dómara í …
Teikning gerð þegar ríkisstjóri Illinois Blagojevich kom fyrir dómara í gær. STR
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert