Götubardagar boðaðir í Aþenu

Tiltölulega rólegt hefur verið í Aþenu í dag svo margir borgarbúar gátu nú snúið aftur til vinnu í fyrsta skipti í marga daga. Mótmælendur hafa hinsvegar varað við því að þeir séu að búa sig undir götubardaga eftir myrkur í kvöld.

Lögreglan í Aþenu segist fyrst hafa náð þokkalegri stjórn á aðstæðum í dag síðan upp úr sauð um helgina, þegar unglingspiltur lést eftir voðaskot lögreglumanns. Óeirðirnar snérust fljótt upp í allsherjarútrás á gremju og reiði vegna efnahagsástandsins í Grikklandi og krefjast sumir þess að kosningum verði flýtt þar í landi.

Hundruð nemenda hafa þó neitað að snúa aftur í skóla og fjölmargir þeirra mótmæltu í dag við lögreglustöðvar í sínum hverfum. Þá stóðu ýmis stúdentafélög fyrir setuverkföllum á 10 stórum umferðargötum í Aþenu og í 120 gagnfræðaskólum og 15 háskólum vítt og breitt um landið. 

Talið er að stúdentar skipuleggi nú mótmæli í miðborg Aþenu á morgun, en samtök stúdent í ólíkum skólum funduðu í dag til að ákvarða aðgerðir næstu daga. Í dag hindruðu anarkistar borgarstarfsmenn í að hreinsa brunnin bílhræ af götunum og gáfu út að þau yrðu notuð sem vegatálmar í götubardögum í nótt.

Lögreglumennirnir tveir sem voru viðráðnir skothríðina eru nú í haldi og hafa verið kærðir. Fyrstu rannsóknir á byssukúlunni sem fjarlægð var úr líki piltsins þótti benda til þess að kúlan hefði hitt hann eftir endurkast. Frekari rannsóknir benda þó til þess að það sé ekki rétt og óttast yfirvöld að það verði olía á eld óeirðina ef endurvarpskenningin verður útilokuð.

Miðborg Aþenu er víða illa útleikin eftir óeirðir síðustu daga
Miðborg Aþenu er víða illa útleikin eftir óeirðir síðustu daga Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka