Þekktur íransk-kanadískur bloggari, Hossein Derakshan, var handtekinn í Íran aðeins fáum vikum eftir að hann sneri aftur til heimalands síns. Derakshan er talinn hafa verið upphafsmaður bloggbyltingarinnar sem hófst í Íran 2001, en lokað hefur verið fyrir aðgang að síðu hans þar í landi allt frá árinu 2004.
Undanfarin ár hefur Derakshan verið búsettur í Kanada þar sem hann starfar sem blaðamaður, en nýlega flutti hann aftur heim til Íran. Að sögn fjölskylduvinar, Nazli Kamvari, var hann handtekinn skömmu síðar, þann 1. nóvember, á heimili sínu í Tehran. Honum hefur verið haldið á óþekktum stað alla tíð síðan, en írönsk yfirvöld hafa enn ekki staðfest handtöku hans. Að sögn Kamvari fékk Derakshan að hafa samband við fjölskyldu sína framan af en nú hafi ekki heyrst frá honum í rúmar tvær vikur. „Þær fjölmörgu tilraunir sem við höfum gert til að komast að því hvar honum er haldið og hvað hann er sakaður um hafa verið árangurslausar,“ sagði Kamvari við AP fréttaveituna í dag.
Derakshan bloggar bæði á ensku og Farsi og setti á sínum tíma inn leiðbeiningar á vefinn um hvernig stofna mætti vefsíður á Farsi sem varð til þess að fjölmargir Íranir byrjuðu að blogga. Hann er hinsvegar umdeildur í hópi umbótasinna í bloggheimum Írans, enda var hann framan af mjög gagnrýninn á stjórnvöld en hefur síðustu mánuði lýst yfir stuðningi sinnum við forsetann Mahmoud Ahmadinejad.
Yfirvöld í Íran hafa handtekið fjölmarga bloggara á síðustu árum í tilraun til að herða eftirlit með umræðum og mótþróa á internetinu.