Ekki ákærðir fyrir að beita rafstuðsbyssu

Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafstuðbyssu sem starfsbræður …
Bandarískur lögreglumaður sést hér halda á Taser rafstuðbyssu sem starfsbræður hans í Kanada bera og notuðu á flugvellinum í Vancouver. AP

Saksóknarar í Kanada hafa ákveðið að ákæra ekki fjóra lögregreglumenn sem beittu rafstuðsbyssu gegn manni sem var handtekinn þegar hann missti stjórn á skapi sínu á alþjóðaflugvellinum í Vancouver í október á síðasta ári.

 Saksóknararnir sögðu að rannsókn hefði leitt í ljós að maðurinn hefði ekki dáið vegna rafstuðsins eins, heldur einnig vegna þess að honum var haldið niðri við handtökuna og vegna slæms líkamlegs ástands hans eftir langvarandi áfengisdrykkju.

Maðurinn, Robert Dziekanski, sem var fertugur innflytjandi frá Póllandi og talaði enga ensku, var látinn þegar sjúkraliðar komu á vettvang. Hann var að flytja til Kanada til að búa með móður sinni, sem býr í Bresku-Kólumbíu.

Atvikið vakti mikla umræðu notkun kanadískra lögreglumanna á svokölluðum Taser rafstuðbyssum.

Frá árinu 2003 hafa 20 látist í Kanada eftir að hafa verið skotnir með rafstuðbyssum samkvæmt upplýsingum frá kanadíska ríkisútvarpinu. Byssurnar skjóta tveimur pílum út sem eru tengdar byssunni með tveimur þráðum. Sá sem fær pílurnar í sig fær um leið 50.000 volta rafstraum, en það er nægilega mikið magn til þess að lama manneskju um stundarsakir. Drægni vopnsins er um sex metrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert