Bretar vilja yfirheyra árásarmennina

Gordon Brown heilsar Asid Ali Zardari í Islamabad í dag
Gordon Brown heilsar Asid Ali Zardari í Islamabad í dag Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, óskaði eftir því við stjórnvöld í Indlandi og Pakistan í dag að þau gæfu breskri lögreglu heimild til að yfirheyra meinta hryðjuverkamenn úr árásunum á Mumbai í nóvember. Hann sagði um þrjá fjórðuhluta alvarlegustu hryðjuverkamálana sem væru til rannsóknar í Bretlandi tengjast al Quaeda í Pakistan.

Brown sagði að Bretar hefðu hug á því að yfirheyra árásarmennina til að komast að því hvað lægi að baki árásunum. Hvorki indversk né pakistönsk yfirvöld hafa veitt svar við beiðninni opinberlega.

Í opinberum heimsóknum sínum til Indlands og Pakistan lagði Brown til að löndin þrjú gerðu með sér samkomulag um að „brjóta þá keðju hryðjuverka sem tengir fjöll Afghanistan og Pakistan við götur Bretlands og annarra landa heimsins.“ Brown fullyrti að þetta yrði yfirgripsmesta sameiginlega áætlun gegn hryðujuverkum sem Bretland tækist á hendur með nokkru landi.

Þá hét Brown því í dag að veita bæði Indlandi og Pakistan meiri tæknilega aðstoð og fjárstyrki til að berjast gegn hryðjuverkum. Þegar verður hrint verkefni með styrk frá Bretum upp á 9 milljón dollara, til að berjast gegn uppsprettu öfgastefnu og styrkja lýðræði í Pakistan, þ.á.m. fyrirheit um að ná til og mennta Pakistönsk ungmenni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert