Fjórir létust í eldsvoða í Noregi

Nú er ljóst að fjórir að minnsta kosti létust þegar gamalt timburhús brann í bænum Flusund á eyjunni Herøy við vesturströnd Noregs í morgun. Hafa þá tíu manns brunnið inni í Noregi um helgina en sex létu lífið í húsbruna í Ósló í gærmorgun.

Lögregla segir að um 20 ungmenni, sum innan við tvítugt og önnur rúmlega tvítug, hafi verið í samkvæmi í húsinu á Herøy í nótt. Fólk kom og fór og því er lögregla ekki með nákvæmar upplýsingar um hve margir voru inni þegar eldurinn kom upp klukkan 6:36 í morgun.

Nú sé þó talið að fimm hafi verið í húsinu. Einn komst út en hinir brunnu inni. Þau voru á aldrinum 17 til 22 ára. Húsið brann til grunna. Hvorki húseigandinn né leigjandi í húsinu voru þar þegar eldurinn kviknaði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert