Hugsanlegt er að stýrivextir í Bandaríkjunum muni ná sögulegu lágmarki eftir helgi. Efnahagur landsins er enn á hraðri niðurleið og vonast seðlabankinn til að ná að dempa fallið sem margir Bandaríkjamenn finna óþyrmilega fyrir, með lægri vöxtum.
Kreppan nú er sú versta í Bandaríkjunum síðan 1930 og hefur Ben Bernanke seðlabankastjóri þegar lækkað stýrivextina í 1%, en þeir aðeins einu sinni áður verið svo lágir síðustu hálfa öldina. Á morgun hefst tveggja daga fundu seðlabankastjórnar til að leggja mat á stöðuna og ákveða næsta vaxtaskref, sem talið er víst að verði tilkynnt á þriðjudag.
Margir hagfræðingar spá því að vextirnir verði enn lækkaðir, um hálft prósentustig eða niður í aðeins 0,5%. Sumir telja jafnvel að seðlabankinn muni ganga enn lengra og lækka vaxtastigið um þrjá fjórðuhluta eða meira. Aðrir sérfræðingar segja að jafnvel þótt lækkunin verði mikil muni það ekki duga til að snúa efnahagsþróuninni við.