Sýndarleikur í Túrkmenistan

Forsetinn Gúrbangúlí Berdímúkhammedov ásamt þjóðaröryggisráðherranum Geldy Ashirmukhamedov.
Forsetinn Gúrbangúlí Berdímúkhammedov ásamt þjóðaröryggisráðherranum Geldy Ashirmukhamedov. Reuters/Michael Steen

Um 77% kjörgengra Túrkmena höfðu greitt atkvæði í þingkosningum þar í landi um miðaftansbil í dag, að staðartíma. Á kjörskrá eru um 2,5 milljónir manna. Kjörsóknin þykir nokkuð góð miðað við að ekki hefur verið kosið þar síðan áður en Saparmurat Niyazov, sem kallaði sjálfan sig föður allra Túrkmena, geispaði golunni.

Kosningarnar eru engu að síður gagnrýndar fyrir að vera sýndarleikur einn, settur á svið af núverandi forseta, Gúrbangúlí Berdímúkhammedov. Margir höfðu þó bundið vonir við að þessar kosningar yrðu vísir að lýðræðisþróun og auknu frelsi í Túrkmenistan.

Stjórnarandstæðingar segja að tilgangurinn með kosningunum sé sá að friða samvisku vestrænna ríkja, sem vilja ólm fá aðgang að víðáttumiklum gaslindum landsins, en eru vör um sig vegna slæms orðspors þess í lýðræðis- og mannréttindamálum.

Einungis einn stjórnmálaflokkur er leyfður í Túrkmenistan, Lýðræðisflokkurinn, og andstæðingar hans hafa ekki náð neinni almennilegri fótfestu í stjórnmálum landsins

Mikill meirihluti hinna 288 þingframbjóðenda eru fulltrúar Lýðræðisflokks forsetans, en afgangurinn eru frambjóðendur samtaka og hópa sem samþykktir hafa verið af stjórnvöldum. Allir frambjóðendur hafa boðið sig fram á forsendum stuðnings við forsetann.

Kosningarnar eru hluti af pólitískum umbótum sem fólust í því að tvöfalda næstum fjölda þingsæta og auka áhrif þingsins. Þannig hefur 2.500 manna ráð, skipað þorpsöldungum og fulltrúum forsetans, verið lagt niður. Það var áður æðsta löggjafarvald Túrkmenistans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert