Mia Farrow, leikkona og góðgerðasendiherra Sameinuðu þjóðanna, biðlaði í dag til þjóða heimsins að stöðva skipulagðar nauðganir á konum og stúlkubörnum í austur Kongó. Ástandinu sem hún kynntist í heimsókn sinni þar lýsir hún sem „einhverjum ömurlegustu aðstæðum sem ég hef nokkurn tíma séð á ævi minni.“
Farrow sneri aftur í gær eftir þriggja daga heimsókn í Afríkuríkinu stríðshrjáða fyrir hönd barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Hún segist hafa hitt og rætt við flóttafólk í austurhluta Kongó og lofað því að segja umheiminum sögur þeirra.
„Illskuverkin sem framin eru gegn konum og börnum eru ofboðsleg og gætu vart verið grófari eða villimannslegri,“ segir leikkonan. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna telur að um 300.000 manns hafi flúið heimili sín vegna bardaga milli stjórnarhersins og uppreisnarhópa, sem staðið hafa síðan í ágúst. Báðir hópar hafa verið sakaðir um að fremja stríðsglæpi gegn almennum borgurum.
„Í einum búðanna sem ég heimsótti sagði kona mér að hermenn kæmu á hverjum degi til að nauðga konum og stúlkum, allt að eins árs gömlum,“ sagði Farrow á blaðamannafundi í Genf. Hún sagði foreldra neita að senda börnin sín í skóla af ótta við að þeim verði rænt og þvinguð til að verða hermenn, eða haldið föngnum sem kynlífsþrælum.
Evrópusambandið íhugar nú að senda 3.000 manna herlið til að liðsinna Sameinuðu þjóðunum í Kongó, en Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, sagði á föstudag að réttara væri að senda herlið frá öðrum Afríkulöndum. Amnesty International gaf út skýrslu í síðustu viku sem segir að nauðgunum sé beitt skipulega sem stríðsvopni af bæði stjórnarhernum sem af skæruliðum.
Mia Farrow líkti ástandinu við það sem hún hefur áður kynnst á ferðum sínum um Darfur-hérað og Tsjad. Hún segir alþjóðasamfélagið hafa brugðist þessum löndum vegna algjörs skeytingarleysis.