Fréttamaðurinn Muntadhar al-Zeidi, sem kastaði skóm sínum að George Bush Bandaríkjaforseta á blaðamannafundi í gær, er nú nánast orðinn þjóðhetja meðal margra samlanda sinna og í Arabaheiminum öllum. Þúsundir manna mótmældu í Baghdad og öðrum borgum í dag og kröfðust lausnar hans úr haldi lögreglu.
Bakgrunnur al-Zeidi er nú tekinn að skýrast og þar með hvatir hans að baki árásinni, en komið hefur í ljós að honum var eitt sinn rænt af skæruliðum og síðar einnig handtekinn af bandarískum hermönnum. Bitur reynsla hans er sameiginleg með mörgum öðrum Írökum sem orðið hafa fyrir árásum frá öllum hliðum í stríðinu. Að sögn fjölskyldu al-Zeidi tók hann með tímanum að hata bæði hernám Bandaríkjamanna sem og „siðferðislegt hernám“ Írana í heimalandi hans. Þótt Írakar hafi fengið sig fullsadda af hernáminu óttast einnig margir að landið þeirra verði berskjaldað gagnvart Írönum þegar Bandaríkjamenn fara.
al-Zeidi er enn í haldi lögreglu vegna atviksins og gæti verið kærður fyrir árás gegn erlendum leiðtoga. Dómur við slíku broti hljómar upp á allt að tveimur árum í fangelsi, en ólíklegt er talið að al-Zeidi fái hámarksrefsingu vegna nýfenginna vinsælda hans í Arabaheiminum. Fjölskylda hans safnaðist saman á heimili hans í Baghdad í dag til að ræða stöðuna. Þau segjast undrast hegðun al-Zeidis og telja fullvíst að árásin hafi verið óundirbúin og í stundarbræði. Þau hafa áhyggjur af því hvernig meðferð hann fái í varðhaldi, en lýsa yfir miklu stolti á andspyrnu hans gagnvart forsetanum.