Blaðamaðurinn Muntadar al-Zeidi, sem henti skó í átt að George W. Bush Bandaríkjaforseta á blaðamannafundi í Bagdad í gær, er nú í haldi og sætir yfirheyrslu. Arabar í Mið-Austurlöndum fagna atvikinu og segja það mátulegt á Bush.
Í yfirheyrslu var Muntadar al-Zeidi spurður hvort einhver hefði borgað honum fyrir að henda skónum í Bush. Jafnframt var mælt hvort hann væri undir áhrifum vímuefna eða áfengis.
Al-Zeidi er haldið í höfuðstöðvum íraska forsætisráðherrans, Nouri al-Maliki og skór hans voru gerðir upptækir sem sönnunargögn.
Dagblaðið al-Baghdadia hefur ítrekað farið fram á lausn al-Zeidi. Haft er eftir Abdel-Hameed al-Sayeh, forstjóra al-Baghdadia, að þetta sé prófraun á samskipti Íraka og Bandaríkjamanna. „Munu þeir sleppa honum eða rétta yfir honum?“ spyr al-Sayeh og segir að þeir njóti samúðar umheimsins.
Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera sýndi viðtal við aðallögfræðing Saddam Hussein Khalil al-Dulaimi, en hann bauðst til að verja manninn og kallaði hann „hetju“.
Atvikið hefur ítrekað verið sýnt á al-Jazeera og fleiri sjónvarpsstöðvum. Al-Zeidi henti skó í átt að Bush og kallaði um leið „Þetta er kveðjukoss, hundurinn þinn“ á arabísku. „Þetta er frá ekkjunum, munaðarleysingjunum og þeim sem voru drepnir í Írak.“
Margir arabískir blaðamenn, sem fengið hafa nóg af stefnu Bandaríkjamanna í Mið-Austurlöndum, hafa tekið undir þessi orð al-Zeidi.
Að sýna einhverjum skósóla lýsir gríðarlegri vanvirðingu í arabaheiminum og enn verra þykir það þegar skó er hent í áttina að fólki.
Þúsundir hafa mótmælt handtöku al-Zeidi og krefjast lausnar hans.