Obama lofar umbótum í menntamálum

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, tilnefndi í dag Arne Duncan, yfirmann ríkisskólanna í Chicago, í embætti menntamálaráðherra og fól honum að koma á umbótum í bandaríska skólakerfinu.

Obama skýrði frá vali sínu á blaðamannafundi og hét auknum fjárframlögum til skóla. Hann sagði að gerðar yrðu meiri kröfur til kennara og foreldra. Hann sagði það „siðferðislega óviðunandi fyrir börn okkar og efnahagslega óverjandi fyrir Bandaríkin“ að ástandið í skólamálum héldi áfram að versna.

Duncan er 44 ára, fyrrverandi atvinnumaður í körfubolta. Hann hefur verið yfirmaður ríkisskóla Chicago, þriðja stærsta skólakerfis Bandaríkjanna, í sjö ár. Markmið hans verður að koma á umbótum í ríkisskólunum án þess að styggja áhrifamikil samtök kennara sem studdu Obama í kosningabaráttunni.

Arne Duncan með Barack Obama.
Arne Duncan með Barack Obama. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka