Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma í kvöld að heimila löndum að grípa til aðgerða á landi í Sómalíu til að elta uppi sjóræningja.
Öryggisráðið hafði áður heimilað herskipum að fara inn í landhelgi Sómalíu en þetta er í fyrsta skipti sem ráðið heimilar aðgerðir á landi í baráttunni við sjóræningjana. Þetta er fjórða ályktun öryggisráðsins um baráttuna gegn sjóránum við strendur Sómalíu.
Skýrt var frá því í dag að sómalskir sjóræningjar hefðu rænt tveimur skipum undan strönd Jemen. Sjóræningjarnir hafa rænt tugum skipa á árinu.