Dómur féll fyrir rétti í Bretlandi í dag í miklum fjölskylduharmleik. Fjölskyldufaðirinn Nigel Gresham var fundinn sekur um að hafa valdið dauða fjögurra barna sinna með háskaakstri á breyttum Land Rover sem ekki uppfyllti öryggisstaðla.
Börnin voru á aldrinum tveggja til átta ára gömul. Jeppanum sem Gresham ók hafði verið breytt að ýmsu leyti til að standast betur utanvegaakstur, en breytingarnar þóttu illa unnar og ekki í samræmi við öryggisstaðla. Bílnum var ekið á 80-96 km. hraða þegar slysið átti sér stað. Gresham sveigði bílnum út í kant til að víkja fyrir bíl sem kom á móti en bíllinn fór fram af og lenti úti í á. Kona hans Sara Bolland og þrjú elstu börn þeirra voru einnig í bílnum en lifðu slysið af. Fjögur yngstu börnin fórust.
Gresham sagðist fyrir rétti kenna bílstjóranum sem á móti kom um slysið, hann hefði sjálfur gert allt sem hann gat til að bjarga börnunum sínum. Móðir barnanna sagði fjölmiðlum eftir úrskurðinn að ekkert af því sem gerst hefði skipti máli, aðeins það að hún fengi aldrei að sjá börnin sín aftur. „Það breytir engu hversu reið ég er, það mun ekki færa mér börnin mín aftur. Ég bið þess bara að þið látið okkur í friði svo við getum reynt að byggja aftur upp líf okkar.“
Kveðið verður upp um refsingu síðar.