Flugmaður nokkur flaug flugvél sinni með 80 farþega innanborðs alla leið frá Cardiff til Parísar, en tilkynnti þeim þá að hann yrði að snúa við þar sem hann væri "ekki hæfur til að lenda".
Flugmaðurinn tók ákvörðun sína þar sem þykk þoka gerði það að verkum að skyggni var aðeins 700 metrar á Charles de Gaulle-flugvellinum. Hann upplýsti farþega sína um að hann hefði ekki hlotið þá þjálfun sem til þyrfti að lenda í slíkum skilyrðum. Hann sneri því við og lenti með farþega sína á Cardiff-flugvelli nokkrum klukkustundum eftir að flugvélin hófst á loft þaðan.
Cassandra Grant var farþegi í vélinni og greiddi 220 pund fyrir miðann. Hún sagði eftir atvikið: „Tuttugu mínútum áður en við komum til Parísar sagði flugstjórinn að flugturn áskildi að hann hefðu 2. gráðu flugréttinda til að lenda en hann væri bara með fimmtu gráðu. Þess vegna yrðum við að snúa við.“ Grant fannst heldur lítið til um flugmanninn og menntun hans.
Farþegarnir fengu far með rútu til Exeter og Birmingham þar sem þeir gátu fengið flugfar með hæfum flugmönnum til frönsku höfuðborgarinnar, að því er segir á Ananova.