Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur gefið skipun um að samin verði áætlun um lokun Guantánamo-búðanna á Kúbu, að sögn fréttavefjar BBC.
Talsmaður ráðuneytisins sagði að starsfhópur væri nú að huga að áætlun um að flytja fangana frá herstöðinni en tryggt yrði að öryggi bandarísku þjóðarinnar yrði ekki stefnt í hættu. Um 250 fangar eru enn í stöðinni.
Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að lokun Guantánamo-búðanna umdeildu sé meðal forgangsverkefna stjórnar sinnar er tekur við 20. janúar. Gates verður áfram varnarmálaráðherra eftir að Obama tekur við völdum.