Væntingar eru um að þorskveiðiheimildir í Norðursjó verði auknar um allt að 30% á næsta ári. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandslandanna þinga í Brussel í dag og á morgun og ákveða fiskveiðiheimildir næsta árs.
Búist er við átakafundi þar sem störfum í sjávarútvegi hefur fækkað mjög á undanförnum árum, samhliða niðurskurði aflaheimilda. Þúsundir starfa hafa tapast í Evrópu síðastliðin tíu ár vegna kvótaskerðingar, þar á meðal 4.000 í Bretlandi.
Umhverfisverndarsinnar segja að þorskur, túnfiskur og síld séu í útrýmingarhættu vegna ofveiði síðustu ára. Málamiðlanir milli talsmanna sjávarútvegsins og ráðgjafar vísindamanna stefni fiskistofnum í hættu.
Búist er við því að á fundi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ESB-ríkjanna verði heimildir til þorskveiði í Norðursjó auknar verulega eftir skerðingar síðustu ára eða um allt að 30%. Talsmenn aukningar benda á að það gæti reynst skynsamlegt í baráttunni gegn brottkasti. Kvótar hafi verið skornir svo niður að þúsundum tonna þorsks sé hent í sjóinn á hverju ári, dauðum eða lifandi.