Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að efla eftirlit með fjármálastofnunum og berjast gegn gegndarlausri græðgi og fjársvikum. Hann segir að með þessu vilji hann koma aftur á stöðugleika í bandaríska hagkerfinu.
Obama hefur útnefnt Mary Schapiro í embætti forstjóra bandaríska fjármálaeftirlitsins og Gary Gensler í embætti formanns viðskiptaeftirlitsins. Obama segir að þau eigi að leiða þá miklu vinnu sem ætlað er að breyta öllu eftirlitskerfinu.
„Þau munu aðstoða við að setja á laggirnar nýjar, skynsamlegar reglur sem munu vernda fjárfesta, neytendur og allt hagkerfið okkar gegn fjársvikum og að fáir óábyrgir aðilar geti ráðskast með það,“ sagði Obama við blaðamenn í Chicago í dag.