Til átaka kom á milli lögreglu og ungmenna í hverfinu Rosengården í Malmö í Svíþjóð í nótt en ungmennin höfðu efnt til mótmælaaðgerða til að leggja áherslu á kröfu sína um að fá afnot af húsnæði sem notað hefur verið sem moska. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten. Ungmennin, sem voru um 200 talsins, kveiktu í bílum og ruslagámum og köstuðu steinum og heimagerðum bensínsprengjum í lögreglu. Þá söfnuðu þau nokkrum hjólhýsum saman á hringtorgi og kveiktu í þeim. Nokkrir bílar lögreglu voru eyðilegðir í átökunum og í morgun þurfti að rýma brak af götunum með jarðýtum.
Ungmennin hafa mótmælt daglega frá því lögregla lokaði kjallara sem gerður hafði verið að mosku á þriðjudag. Eigandi húsnæðisins hafði sagt leigusamningnum upp í nóvember.
„Í gær mótmæltum við lokuninni en í dag mótmælum við framkomu lögreglu sem sló tíu ára dreng í gær," sagði einn mótmælendanna í gær. „Það er mikil reiði í okkur.”
Þá segjast mótmælendur ekki ætla að láta af aðgerðum sínum fyrr en þeir fái moskuna sína aftur.