Mark Felt, fyrrum aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, er látinn 95 ára að aldri. Felt komst í heimsfréttirnar fyrir þremur árum þegar upplýst var, að hann hefði verið sá heimildarmaður blaðamannsins Bobs Woodwards í Watergatemálinu svonefnda, sem kallaður var „Deep Throat".
Ráðgátan um Deep Throat var áratugum saman tilefni mikilla samsæriskenninga og fjölda bóka og blaðagreina. Ávallt þegar böndin bárust að Felt vísaði hann því á bug að hann hefði verið heimildarmaður Woodwards. En árið 2005 birtist grein í tímaritinu Vanity Fair eftir John Connor, fjölskylduvin Felt-fjölskyldunnar.
„Ég er sá sem þeir kölluðu Deep Throat," er haft eftir Felt í greininni og Woodward og Carl Bernstein, félagi hans á Washington Post á Watergateárunum, staðfestu það síðan.
Felt hafði fram að þessu átt í mikilli innri baráttu um hvort hann
ætti að koma fram í dagsljósið og hafði miklar áhyggjur af mannorði
sínu. Joan dóttir hans sannfærði hann loks um að leggja spilin á
borðið. Þá var Felt orðinn heilsuveill og hafði m.a. fengið
heilablóðfall.
Misjöfn viðbrögð urðu við þessari uppljóstrun. Ýmsir þeir, sem setið höfðu í fangelsi vegna Watergatemálsins, sögðu að Felt væri svikari, hefði svikið forseta sinn. Aðrir sögðu hann vera hetju, sem hefði flett ofan af tilraunum spilltrar ríkisstjórnar til að hylma yfir lögbrot og óheiðarleg vinnubrögð gagnvart pólitískum andstæðingum. Watergatemálið leiddi til þess að Richard M. Nixon sagði af sér embætti Bandaríkjaforseta árið 1974.
Vangaveltur hafa verið um hvers vegna vildi Felt koma upp um svikabrögðin sem Nixon og menn hans beittu? Þegar J. Edgar Hoover, fyrsti og þá eini forstjóri FBI, lést 1972, vildi Felt verða eftirmaður hans. Hann vildi einnig að stofnunin héldi sjálfstæði sínu gagnvart stjórnvöldum. Það olli honum því miklum vonbrigðum þegar Nixon skipaði utanaðkomandi mann, L. Patric Gray III, þáverandi aðstoðardómsmálaráðherra, í embættið.
Felt var einnig
ákveðinn í að hindra að stjórnvöldum tækist að stjórna rannsókn FBI á
innbrotinu í höfuðstöðvar kjörnefndar Demókrataflokksins í Watergate
byggingunni í Washington. Þannig kom það til að hann tók að sér
hlutverk uppljóstrarans.
Woodward sagði árið 2005, að Felt hefði komið Washington Post til aðstoðar á tímum þegar samskipti FBI og Hvíta hússins hefðu verið erfið. Woodward hefur síðan lýst samskiptum sínum við Felt í bókinni The Secret Man, en þeir kynntust fyrst áður en Woodward gerðist blaðamaður. Felt hafði aðstoðað Woodward við upplýsingaöflun í nokkrum málum áður en Watergatemálið kom upp en krafðist þess jafnframt að Woodward héldi sambandi þeirra leyndu.
Meðan á Watergatemálinu stóð krafðist Felt þess að þeir Woodward hittust að næturlagi í bílageymslu en Woodward kom beiðni um fundina á framfæri við Felt með því að setja rauðan fána í blómapott á svölum íbúðar sinnar.