Íslenski skellurinn í 10. sæti

Ísland er í tíunda sæti yfir það versta sem gerðist í viðskiptalífi í heiminum á þessu ári samkvæmt lista sem Time hefur sett saman. Ísland deilir topp tíu listanum m.a. með Lehmann Brothers og matsfyrirtækjum.

Í Time er sætisskipan Íslands rökstudd með því að þrír stórir bankar séu í landinu, 300.000 manns og engin greiðslugeta.  Tónninn er vægast sagt háðskur og segir m.a. „Það er ekki oft sem gervallur auður heillar þjóðar þurrkast út. Þetta gerðist hins vegar á Íslandi þegar gjaldmiðillinn þar, krónan, tók að falla gegndarlaust þegar fjárfestar sviku lit.

Ekki var hægt að greiða milljarðaskuldir í evrum og innistæður viðskiptavina í Bretlandi og Þýskalandi, sem létu lokkast af háum vöxtum bankanna þriggja, brunnu inni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lánar landinu 2,1 milljarð dollara og  Finnland, Svíþjóð og Danmörk munu skaffa 2,5 milljarða dollara.  Þjóðverjar hóstuðu líka upp nokkrum hundruðum milljóna, en þeir verða notaðir til að fylla upp í það sem á vantar fyrir þýska innistæðueigendur. 

Jafnvel er talað um að Ísland mæli Rússa málum í von um hjálp. Ísland er auralaust en þar er jarðhiti svo enginn mun frjósa til dauða.“

Nánar á Time.

Í fyrsta sæti á þessum óskemmtilega lista er fall Lehmann Brothers. Sagt er að ákvörðun Hank Paulson og Ben Bernanke um að fella þá hafi reynst meira en lítið afdrifarík.

Eftir það koma svo AIG, bandarískur bílaiðnaður, Citigroup, Freddie Mac og Fannie Mae, svokölluð „örugg“ verðbréf, trúverðugleiki matsfyrirtækja og lokaðir sjóðir í því áttunda.

Loks, í níunda sæti og þar með næst á undan Íslandi, er orðspor Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandarkjanna. Um hann er sagt að á hann hafi nánast verið litið sem fjármálaguð. Með því að hækka ekki vexti þegar fasteignabólan stóð sem hæst liðkaði Greenspan fyrir því að auðfengnir peningar flæddu í áhættusömum viðskiptum. Eftir það neyddist hann til að viðurkenna að hann hefði ekki metið áhættuna við undirmálslánin bandarísku rétt.  Þessi frægi peningamaður var nauðbeygður til að viðurkenna: „Ég klúðraði málunum.“

Hrunið á Íslandi er í tíunda sæti yfir það versta …
Hrunið á Íslandi er í tíunda sæti yfir það versta sem gerðist í viðskiptalífinu á heimsvísu á árinu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert