Svo gæti farið að breskur kennari sem dettur í það á laugardagskvöldi verði bannað að stunda kennslu ef tillögur sem kennsluráð Bretlands hefur til skoðunar verða að veruleika. Ráðið hyggst setja nýjar siðareglur og markmiðið á að vera að kennarar séu í ríkari mæli en áður fyrirmyndir nemenda utan vinnutímans.
Framkvæmdastjóri ráðsins, Keith Bartley, segir að flestir kennarar gæti mjög framkomu sinnar utan skólatímans og það sé afar mikilvægt til að starfið njóti virðingar. Ekki hefur verið ákveðið hvaða forsendur skuli notast við þegar kennara verður refsað fyrir slæma framkomu utan vinnutímans.
Einn af talsmönnum ráðsins segir að hvert tilfelli verði skoðað og niðurstaðan gæti farið eftir því hvernig umræddur kennari líti sjálfur á brot sitt. Í reglugerðinni segir m.a. að kennari geti verið rekinn fyrir að vernda ekki nógu vel barn sem hann kenni, fyrir lélegt eftirlit á skólaferðalagi, fyrir óviðeigandi kynlífstal eða óviðeigandi samskipti við nemanda, einnig í smáskilaboðum eða bréfum til nemenda.