Vopnaðir menn réðust í gær inn á heimili írösku kvenréttindakonunnar Nahla Hussain í borginni Kirkuk í norðurhluta Íraks og afhöfðuðu hana. Hún var ein á heimili sínu er á hana var ráðist. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Mikil spenna er í Írak vegna sveitastjórnarkosninga sem þar eiga að fara fram í næsta mánuði. Þá voru 24 embættismenn innanríkis og varnarmálaráðherra landsins handteknir í þessari viku vegna gruns um að þeir ynnu að endurreisn hins bannaða Baath flokks.
Baath flokkurinn stjórnaði Írak í 35 ár en var bannaður eftir að Saddam Hussein, fyrrverandi forseti landsins var hrakinn frá völdum í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna og Breta í landið.