„Ég á Simbabve,“ segir Robert Mugabe, forseti landsins, sem hefur hafnað áköllum annarra Afríkuleiðtoga um að víkja úr embætti.
„Ég mun aldrei, aldrei, aldrei gefast upp,“ sagði hann við flokksfélaga sína á árlegri flokksráðstefnu.
Mugabe hefur einnig sagt að hann hafi sent Morgan Tsvangirai, leiðtoga helsta stjórnarandstöðuflokksins, bréf þar sem honum hafi verið boðið að taka við forsætisráðherraembættinu. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins greinir frá þessu.
Tsvangirai hefur hins vegar látið þau orð falla að hann muni ekki halda áfram að taka þátt í viðræðum um skiptingu valds á meðan verið sé að nema stuðningsmenn hans á brott.
Hann segir að rúmlega 40 stuðningsmanna Lýðræðisflokksins sé saknað. Hann sakar Zanu-Pf, sem er flokkur Mugabe, um að standa á bak við mannshvörfin.