Obama kynnir efnahagsaðgerðir

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna. Reuters

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur sett sér það markmið að búa til þrjár milljónir nýrra starfa í Bandaríkjunum á næstu tveimur árum. Þá kynnti í dag sérstakan starfshóp sem er ætlað að vernda bandarískar fjölskyldur sem eru úti á vinnumarkaðinum.

Nokkrir af ráðgjöfum Obama sögðu við bandaríska fjölmiðla að Obama hefði bætt 500.000 störfum við upphaflega áætlun sína, en hann sagði í nóvember að hann ætlaði að fjölga störfum sem nemur 2,5 milljónum á næstu tveimur árum.

Útlit er fyrir að 3,5 milljónir Bandaríkjamanna muni missa vinnuna á næsta ári. Nú mælist atvinnuleysið 6,7% en því er spáð að hlutfallið gæti farið í 9% á næsta ári. Að sögn bandaríska dagblaðsins Washington Post ákvað Obama að kynna róttækari aðgerðir af þessum völdum.

Obama hyggst taka til sinna ráða um leið og hann sver embættiseið 20. janúar nk. Starfshópur á vegum hans sem vinnur nú að stórum aðgerðarpakka sem ætlað er að hleypa lífi í bandaríska hagkerfið. Hann verður brátt kynntur Bandaríkjaþingi. Talið er að innspýtingin gæti numið rúmum 850 milljörðum dala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert