Vill að Jústsénkó hætti

Júlía Týmosénko á blaðamannafundi í Kíev.
Júlía Týmosénko á blaðamannafundi í Kíev. Reuters

Júlía Týmósénkó, forsætisráðherra Úkraínu, krafðist þess í dag að forseti landsins, Víktor Jústsénkó, segði af sér embætti. Hún hvatti til þess að kannað yrði hvort nánir samstarfsmenn hans hefðu hagnast á því að veðja gegn gjaldmiðlinum, hrývnía.

 Ráðherrann sagði að maður að nafni Dmýtró Fírtash, milljarðamæringur sem á samstarf við rússneska risafyrirtækið Gazprom um gasflutninga til Úkraínu og fleiri Evrópuríkja, hefði tekið þátt í braskinu með forsetanum.

 Fjármálakreppan hefur leikið Úkraínu grátt og hefur ríkið fengið lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Týmósénkó segir að verulegur hluti ríkisláns til aðþrengds banka, Nadra, hafi verið notað í spákaupmennsku með gjaldeyri. Áðurnefndur Fírtash hefur að sögn Financial Times áhuga á að kaupa bankann.

 Týmósénkó og Jústsénkó hafa lengi eldað grátt silfur og sakaði forsetinn hana í gær um að grafa undan efnahag landsins. Fírtash hefur nú hótað málsókn gegn Týmósénkó vegna umræddra ásakana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert