Bush afturkallar náðun

Bush hélt í jólafrí til Texas á Þorláksmessu.
Bush hélt í jólafrí til Texas á Þorláksmessu. Reuters

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur afturkallað náðun sem hann veitti athafnamanni í New York í gær. Maðurinn var einn af 19, sem forsetinn veitti náðun á Þorláksmessu en í kjölfarið komu fram nýjar upplýsingar um afbrot mannsins og einnig um að faðir hans hafði gefið háa fjárhæð í kosningasjóði Repúblikanaflokksins.

Isaac Robert Toussie  var sakfelldur fyrir fjársvik og fyrir að veita stjórnarskrifstofu rangar upplýsingar.  Hann var dæmdur til 5 mánaða fangelsisvistar, í 5 mánaða stofufangelsi og þriggja ára skilorð.

Dana Perino, talsmaður forsetans, sagði að eftir að ákvörðun um náðunina lá fyrir hefðu komið fram nýjar upplýsingar um eðli þeirra brota, sem Toussie hefði gerst sekur um. Þá hefði Hvíta húsið ekki vitað að Robert Toussie, faðir Isaacs, hafði gefið Repúblikanaflokknum 28.500 dali í apríl.

Fjölmiðlar í New York upplýstu í gær að  Toussie hefði verið ákærður fyrir að blekkja fasteignakaupendur með því að selja þeim lélegar íbúðir með földum göllum á uppsprengdu verði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert