Átta látnir eftir „jólasveinaárás“

Komið hefur í ljós að a.m.k. átta létu lífið er maður klæddur jólasveinabúningi hóf skothríð á gesti á heimili fyrrum tengdaforeldra sinna í Covina í nágrenni Los Angeles í Kaliforníu í fyrradag. Í fyrstu var talið að þrír hefðu látið lífið í árásinni en síðan hafa fleiri lík fundist í rústum hússins sem maðurinn brenndi til kaldra kola. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Maðurinn framdi sjálfsvíg er lögregla kom að handtaka hann á heimili bróður hans eftir árásina. Hann er sagður hafa klætt sig úr búningnum eftir að hafa skotið á gesti í jólaveislu á heimilinu og síðan kveikt í því með heimatilbúnum sprengibúnaði. Staðfest hefur verið að fyrrum eiginkona hans og foreldrar hennar eru á meðal hinna látnu. 

Talið er að tilræðismaðurinn Jeffrey Pardo, 45 ára, hafi nýlega misst vinnuna auk þess sem hann skildi nýlega við eiginkonu sína. Um 25 manns voru á heimili tengdaforeldra hans er hann kom þar inn klæddur sem jólasveinn og hóf að skjóta á gesti.

Frá vettvangi árásarinnar.
Frá vettvangi árásarinnar. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert