Bandarískir neytendur flykktust í verslanir í þar í landi í morgun þegar útsölur hófust. Margar verslanir opnuðu fyrir kl. 6 í morgun og buðu 50-75% afslátt af vörum. Neytendurnir virðast þó fara sér hægt.
Verslunareigendur vonast eftir því að að afslættirnir muni lokka neytendur til að leysa út gjafabréf og nota pening vegna skilaðra gjafa til þess að kaupa eitthvað nýtt.
Þrátt fyrir mikla afslætti virðast bandarískir neytendur fara sér hægt og miklir afslættir virðast ekki duga til að rétta af einhverja lélegustu jólaverslun sem sést hefur í Bandaríkjunum í mörg ár. Margir virtust áhugalausir þrátt fyrir að vörurnar væru nánast á gjafaverði og aðrir ætluðu að skila gjöfum og fá pening í staðinn.
Svo virðist sem þau lágu verð sem bandarískar verslanir buðu rétt fyrir jólin til að örva jólaverslunina séu að koma niður á útsölunum núna. Britt Beemer, hjá America's Research Group sagði í samtali við AP-fréttastofuna að sölutekjur í síðustu viku desembermánaðar nemi u.þ.b 14% af jólaversluninni. En jólaverslunin telur yfir 30-50% af tekjum verslana yfir árið í heild sinni og hefur hún verið afleit í ár.