Þjóðarleiðtogar heims kalla nú eftir því að ofbeldinu í Ísrael og Palestínu linni tafarlaust, eftir mannskæðar loftárásir Ísraelsmanna á Gasaströndina í dag, og flugskeytaárásir palestínskra hermanna.
Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandið og stjórnvöld í Rússlandi hvöttu báða deiluaðila til að láta af ofbeldinu. Bandarísk stjórnvöld, sem hafa verið sterkustu bandamenn Ísraela, sögðu að forðast bæri mannfall meðal óbreyttra borgara.
Yfir 200 Palestínumenn hafa látist, samkvæmt yfirmanni neyðarþjónustunnar á Gasaströndinni.
Í Miðausturlöndum telja forystumenn araba að ofbeldið sé Ísrael að kenna og samtök íslamskra trúarleiðtoga saka Ísraela um stríðsglæði fyrir að þyrma ekki lífi óbreyttra borgara.
Tony Blair, sem gegnir starfi erindreka í Miðausturlöndum, harmaði í dag mannfallið og kallaði eftir því að báðir deiluaðilar létu af árásum sínum. Hann sagði þörf á „nýrri áætlun fyrir Gasa, sem hefði að markmiði að koma svæðinu aftur undir réttmæta stjórn palestínskra yfirvalda á þann hátt að þjáningar Palestínumanna tækju enda og friður yrði tryggður í Ísrael.“
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins lét í ljós djúpstæðar áhyggjur yfir stigmögnun ofbeldis á Gasaströndinni og harmaði mannfallið.
Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti fordæmdi sterklega óábyrgar ögranir sem hann segir að hafi leitt til ástandsins sem og beitingu of mikils vopnavalds.
Utanríkisráðherra Rússa hvatti Ísraela til að stöðva þegar í stað stórfelldar árásir sínar á Gasaströndina. Hann sagði vopnahlé mikilvægast forgangsmálið nú.
Talsmaður bandarískra stjórnvalda hvatti ísraelsk stjórnvöld til að forðast fall óbreyttra borgara í árásum sínum. Hamas yrði hins vegar að hætta hryðjuverkaárásum sínum ef samtökin vildu eiga þátt í að byggja upp framtíð Palestínsku þjóðarinnar.
Svipuð skilaboð komu frá utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, sem sagði að Hamas yrði þegar í stað að hætta eldflaugaárásum sínum.
Gordon Brown, forsætisráðherra Breta sagðist hafa þungar áhyggjur af ástandinu. Hann bætti því við að hann skildi þó „mat ísraelskra stjórnvalda á ábyrgð sinni gagnvart ísraelsku þjóðinni.“