Um hundrað heimilislausra manna yfirtók leikfimissal í París í dag og kröfðu borgarstjóra Parísar um „hæli“. Þetta gerðist í kjölfar kjölfar þess að nokkrir einstaklingar létust í kuldakasti eftir að hafa sofið utandyra.
Meðal húsatökumanna voru fjölskyldur með börn og samþykkti borgarstjórinn Bertrand Delanoe að leyfa þeim að dvelja í Saint-Merri leikfimissalnum sem er skammt frá Notre Dame dómkirkjunni. Fær hópurinn að vera í salnum þar til starfsemi þar hefst að nýju eftir áramót.
Aðgerðum hinna heimilislausu er stjórnað af aðgerðarhópnum Right to Housing, sem hefur fengið athygli um allt Frakkland fyrir aðgerðir sínar í þágu heimilislausra.
Talsmaður hópsins segir að ákveðið hafi verið að taka yfir leikfimissalinn þar sem talið var að fólkið væri í hættu. Hitastig hefur farið niður fyrir frostmark í París flestar nætur þessa vikuna. Talsmaðurinn bætti því við að hópurinn myndi snúa á ný á göturnar þegar hlýnaði í veðri, enda hafi hópurinn ekki áhuga á að trufla skipulagt starf í leikfimissalnum.
Aðgerðahópurinn hefur þrýst á stjórnvöld um að veita 8000 heimilislausum fjölskyldum aðstoð í samræmi við ný lög, sem kveða á um að fólk hafi lagalegan rétt til að hafa þak yfir höfuðið, rétt eins og það á kröfu á að mennta sig. Heimilislausir geta þannig stefnt stjórnvöldum í krafti laganna.