Sovétleiðtoginn Jósef Stalín varð þriðji í kjöri á vinsælasta Rússa allra tíma sem þarlend sjónvarpsstöð stóð fyrir. Kjörinu lauk í kvöld. Alls bárust yfir 50 milljón atkvæða en íbúar landsins eru um 143 milljónir. Mjög hefur verið gagnrýnt að harðstjórinn Stalín skyldi vera á meðal þeirra 50 sem hægt var að velja í kjörinu.
Efstur í kjörinu varð 13. aldar prinsinn Alexander Nevsky, en undir hans stjórn hrundu Rússar innrás Þjóðverja, og í öðru sæti varð Pyotr Stolypin sem var forsætisráðherra í byrjun 20. aldar.
„Við þurfum að velta því mjög alvarlega fyrir okkur, hvers vegna þjóðin kýs að setja Josef Vissarionovich Stalin í þriðja sæti,“ sagði Nikita Mikhalkov, kunnur leikari og leikstjóri, eftir að úrslitin voru kunngjörð í kvöld, en hann en hann var einn dómara í kjörinu. Fyrir því stóð sjónvarpsstöð í eigu rússneska ríkisins.
Á nærri 30 ára valdatíð Stalíns létust milljónir landsmanna úr hungri, voru teknir af lífi vegna andstöðu við hið ríkjandi vald eða létust í Gúlaginu, illræmdum fangabúðum Stalíns.
Stalín lést á valdastóli 1953.
Þetta verkefni, kjör vinsælasta Rússa allra tíma, var sett á laggirnar í júní og þá birtur listi yfir þá 50 sem fólk gat kosið, en upphaflega höfðu nöfn 500 manna þótt koma til greina.