Talið er að yfir 300 Palestínumenn séu látnir og 1.000 særðir eftir að ísraelskar flugvélar hófu að varpa sprengjum á Gaza-svæðið á laugardag. Í nótt voru skotmörkin bygging innanríkisráðuneytisins og Íslamski háskólinn.
Með árásunum eru Ísraelsmenn að reyna að stöðva sprengjuárásir Hamas-samtakanna á suðurhluta Ísrael en sex mánaða vopnahlé milli ríkjanna rann út í síðustu viku. Ísraelar hafa hótað að senda inn landgöngulið.
Ráðuneytið var undir stjórn Hamas sem ráða ríkjum á svæðinu. Um er að ræða fyrstu árásina á stjórnarbyggingu. Hvað árásina á háskólann varðar var henni beint að byggingu sem hýsir tilraunastofur en talið er að Hamas hafi notað þær til að búa til öflugar sprengjur.
Í árásunum hafa allar lögreglustöðvar á Gaza verið eyðilagðar. Af þeim rúmlega 300 manns sem hafa fallið eru um helmingur lögreglumenn.