Flytja út bændur til Afríku

.
.

Kínverjar hafa nú um nokkra hríð gert sér mjög dælt við Afríkuríkin og viðskiptin við þau hafa stóraukist. Kínverjar kaupa af Afríkumönnum einkum hrávöru og landbúnaðarafurðir og láta þá fá í staðinn sitt af hverju, t.d. iðnvarnig og vopn, og einnig dálítið annað: Kínverska bændur.

Áætlað er, að viðskipti Kína og Afríkuríkja hafi verið um 100 milljarðar dollara á þessu ári en Kínverjar líta ekki síst hýru auga til mikilla náttúruauðlinda í Afríku og einkum til olíunnar. Talið er, að um 750.000 Kínverjar hafi verið í Afríku um hríð eða sest þar að til að stunda viðskipti og til að nýta auðlindirnar. Í þeim hópi eru bændurnir en aðeins frá Hebei-héraið í Kína hafa komið 10.000 bændur og þeir hafa sest að í 18 Afríkuríkjum. Búa þeir í svokölluðum „Baoding-þorpum", allt frá 400 manns upp í 2.000.

Í Kína búa rúmlega 20% mannkyns en þar í landi eru aðeins um 7% ræktanlegs lands. Í Afríku er landrýmið yfrið nóg en fólkið tiltölulega fátt og afrískir bændur, sem stunda eitthvað meira en sjálfsþurftabúskap, enn færri.

Sumum hugnast ekki þessi þróun. benda þeir á, að Kínverjar geri hosur sínar grænar fyrir ráðmönnum víða í álfunni og láti sér í léttu rúmi liggja hvernig stjórnarfarið er. Haldi kínversku bændunum og öðrum áfram að fjölga og ítök þeirra að aukast þá geti verið, að Afríkumenn eigi eftir að vakna upp við vondan draum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka