Palestínsku Hamas samtökin hótuðu því í gær að hefna loftárása Ísraela á Gasasvæðið undanfarna daga með því að ráða ísraelska ráðamenn af dögum. Nefndi Fatah Hamad, háttsettur liðsmaður samtakanna, ísraelsku ráðherrana Tzipi Livni utanríkisráðherra og Ehud Barak varnarmálaráðherra sérstaklega í því sambandi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá sagði hann Hamas ætla að ráðast á þá ráðamenn Palestínumanna á Vesturbakkanum og í arabaheiminum, sem hafi unnið gegn samtökunum en þau fara með völdin á Gasasvæðinu. Talið er að hann hafi sérstaklega vísað til Egypta í því sambandi en Egyptar hafa haft milligöngu bæði í friðarviðræðum á milli ólíkra fylkinga Palestínumanna og á milli Palestínumanna og Ísraela.
Er Hamas samtökin lýstu því yfir fyrir að sex mánaða vopnahlé þeirra og Ísraela myndi renna út fyrir rúmri viku, studdu Egyptar þá staðhæfingu Ísraela að engin tímatakmörk hafi verið á vopnahléinu. Ísraelar hafa nú haldið uppi hörðum loftárásum á Gasasvæðið í þrjá sólarhringa og hafa hátt í þrjúhundruð Palestínumenn látið lífið í þeim.