Yfir þrjú hundruð Palestínumenn eru látnir og yfir eitt þúsund særðir eftir árásir Ísraelsmanna á Gaza. Talsmaður forseta Bandaríkjanna, Gordon Johndroe, segir að Hamas samtökin, sem eru við völd á Gaza, séu hryðjuverkasamtök og krafðist þess að þau létu af flugskeytaárásum á Ísrael. Bandarísk stjórnvöld beina þeim tilmælum til Ísraela og Hamas að samið verði um vopnahlé á ný.
Johndroe sagði á fundi með fréttamönnum í dag að bandarísk stjórnvöld hefðu beðið Ísraela um að forðast það að beina árásum sínum gegn almenningi á Gaza.
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, hringdi fyrr í dag í Abdullah konung Jórdaníu og Abdullah konung Sádí-Arabiu. Að sögn Johndroe mun Bush ekki tjá sig um ástand mála í Miðausturlönd að svo stöddu.
Árásunum hefur verið mótmælt víða um heim í dag og um helgina.
Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, sagði í gær að til greina kæmi að beita einnig landhernaði ef nauðsyn krefði til að binda enda á flugskeytaárásir Hamas-samtakanna á Ísrael. Stjórn landsins heimilaði hernum að kalla út allt að 6.500 manns í varaliði hersins vegna hernaðarins.
Shlomo Brom, fyrrverandi ráðgjafi Baraks, sagði að ísraelsk stjórnvöld vildu ekki gera sömu mistök og í Líbanonsstríðinu. Þau settu sér nú aðeins það markmið að knýja fram vopnahlé, frekar en að reyna að koma Hamas frá völdum á Gaza-svæðinu.
Samtökin hafa verið við völd á Gaza í hálft annað ár og eru með þúsundir manna undir vopnum. Ólíklegt er að Ísraelar geti steypt Hamas af stóli með hervaldi, nema með því að hernema allt Gaza-svæðið að nýju og það gæti leitt til mannskæðra átaka. „Ísraelar eru ekki að reyna að gersigra Hamas vegna þess að það yrði of dýrkeypt,“ sagði Brom.
Khaled Meshaal, útlægur leiðtogi Hamas, hvatti Palestínumenn um helgina til að
hefja nýja uppreisn gegn Ísraelum og sagði að hernaðinum yrði svarað
með sjálfsmorðsárásum. Hamas-menn skutu tugum flugskeyta á Ísrael um
helgina og einn Ísraeli beið bana. Leiði hernaðurinn til verulegs
mannfalls meðal Ísraela gæti hann reynst stjórnarflokkunum dýrkeyptur í
þingkosningum sem fram fara í Ísrael 10. febrúar.