Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels, lítur jákvæðum augum á tillögur um 48 klukkustunda vopnahlé á og við Gasaströndina, að sögn talsmanns hans, Moshe Ronen.
Ronen sagði ráðherrann jákvæðan út í vopnahlé af mannúðarástæðum og undirstrikaði að um væri að ræða 48 klukkustunda vopnahlé sem Frakkar höfðu lagt til. Hann bætti því við að þetta kæmi ekki í veg fyrir að Ísrael undirbyggju áfram landhernað á svæðinu.
Alþjóðasamfélagið hefur í dag kallað eftir vopnahlé á Gasaströndinni. Yfir 360 palestínumenn hafa látist í átökunum sem hafa geisað þar síðan á laugardag, þegar Ísrael hóf loftárásir sínar á Gasa. Tilkynnt hefur verið um lát fjögurra Ísraela, sem féllu fyrir flugskeytum Hamas samtakanna.
Kvartettinn í málefnum miðausturlanda, þ.e. Bandaríkin, Evrópusambandið, Sameinuðu Þjóðirnar og Rússland, hvöttu í yfirlýsingu til „tafarlauss vopnahlés sem yrði virt að fullu", bæði út frá mannúðarsjónarmiðum og efnahagsástandsins á svæðinu, að því er fram kemur í frétt BBC. Grípa yrði til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að neyðaraðstoð kæmist til skila.
Þá hermir frétt BBC að utanríkisráðherra Frakka, Bernard Kouchner, hafi sagt eftir fund Evrópuráðherra í París, að Ísrael og Hamas ættu að enda átök sín. „Við viljum varanlegt vopnahlé," sagði hann við franska fjölmiðla.
Gazasvæðið, sem er aðskilið frá Vesturbakkanum, er 360 ferkm. Þar búa 1,5 millj. manna eða rúmlega 4.100 á hvern ferkm. Er Hamas þar við völd en hún er herskárri en Fatah-hreyfing Abbas forseta Palestínu.