Breyting á meðferð og viðhorfum þjóða heims til matvæla verður að eiga sér stað eigi þeir níu milljarðar manna, sem spáð er að muni byggja jörðina árið 2050, að hafa greiðan aðgang að mat.
„Matvælaframleiðsla heims verður að tvöfaldast til að mæta eftirspurninni,“ hefur BBC eftir breska umhverfisráðherranum, Hilary Benn, er hann setti á stofn matvælaráð á vegum yfirvalda sem veita á stefnumótandi ráðgjöf.
„Við höfum þekkinguna og tæknina til aukinnar framleiðslu eins og er, en verði áhrif loftslagsbreytinga, umhverfisspjalla, vatns- og olíuskorts eins og spáð er, gæti það hamlað viðeigandi árangri,“ sagði Benn.
Í liðnum mánuði hvatti forstjóri FAO, Jacques Diouf, leiðtoga heims til að láta af hendi 30 milljarða Bandaríkjadala á ári til að koma upp nýju landbúnaðarkerfi. „Við verðum að finna upp nýtt alheimskerfi sem mætir betur nýrri matvælakreppu,“ sagði Diouf.
963 milljónir manna heims eru vannærðar, en það er 40 milljónum fleiri en á síðasta ári, samkvæmt skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem var kynnt í desembermánuði. Helstu ástæður vaxandi hungurs er hækkandi matvælaverð en stofnunin varar jafnframt við því að fjármálakreppa heims muni að öllum líkindum valda vaxandi hungursneyð á næstunni.
Helsta vandamálið sem greiða verður úr er að finna leið til að matvælakerfi heims vinni með jörðinni og líffræðilegum fjölbreytileika náttúrunnar, í stað þess að vinna gegn honum og rífa hann niður. Nýta verði jörðina vel en jafnframt að koma til móts við hana með umhverfisverndarsjónarmiðum.
Þetta er mat margra matvælasérfræðinga og þ. á m. prófessors Tim Lang sem er meðal ráðgjafa í nýstofnuðu matvælaráði breskra yfirvalda. Lang telur að sjálfbært matvælakerfi framtíðar verði að byggja á nýjum stoðum.
Núverandi kerfi sem eigi rætur að rekja til fimmta áratugar síðustu aldar búi yfir göllum sem m.a. hafi alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. Græna byltingin svokallaða, sem hófst á fimmta áratugnum og varð til þess að með nýrri tækni tók landbúnaðarframleiðsla heims kipp, m.a. með notkun áburðar, áveitu og skordýraeiturs, hafi því ekki haft tilskilin áhrif.
„Matvælaiðnaðurinn grundvallast á olíu sem orkugjafa þrátt fyrir að hún fari nú þverrandi. Áhrif þess á landbúnaðinn eru gríðarlega mikil og ein aðalástæðan fyrir óstöðugleikanum á matvælamörkuðum heims,“ segir Lang.
Að sögn Lennart Bage, forstjóra Alþjóðasjóðs um þróun landbúnaðar (IFAD) grundvallast efnahagur 50 vanþróuðustu ríkja heims á landbúnaði. Stuðningur við landbúnað þeirra landa hafi því mun meiri áhrif í baráttunni gegn fátækt en stuðningur við aðrar greinar.
Konur hafa axlað ábyrgð á matvælaræktun í Afríku en eiga þó aðeins mjög lítinn hluta landsins og fá aðeins um 5% þeirrar þjálfunar og upplýsinga sem eru ætlaðar bændum.
Í nýrri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ segir að taka skuli á kynjamisrétti í landbúnaði með áherslu á að bæta aðgang kvenna að tækni, landi og fjármagni. Sætu konur og karlar í Gana t.d. við sama borð myndi notkun áburðar aukast og framleiðsla kvennanna tvöfaldast.