Ísraelski herinn hefur viðurkennt að hafa ofmetið þá hættu sem ísraelskum borgurum stafar af nýrri gerð flugskeyta herskárra Palestínumanna á Gasasvæðinu. Þá segir í skýrslu hersins að áhrif loftskeytaárása Palestínumanna á íbúa þeirra svæða sem orði hafa fyrir flugskeytaárásunum séu minni en sérfræðingar hersins hafi gert ráð fyrir. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Um 350 flugskeytum hefur verið skoti frá Gasasvæðinu yfir landamærin til Ísraels frá því Hamas-samtökin sem ráða Gasasvæðinu lýstu því yfir fyrir tveimur vikum að sex mánaða vopnahlé Palestínumanna á Gasasvæðinu og Ísraela væri útrunnið. Fjórir Ísraelar hafa látið lífið í árásunum.
Fram kemur í skýrslu hersins að hæfni ísraelskra yfirvalda til að sinna þörfum borgara á átakatímum hafi batnað mikið frá Líbanonstríðinu árinu 2006 en þá var um 1.000 flugskeytum skotið á norðurhluta Ísraels.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Matan Vilani aðstoðarvarnarmálaráðherra fóru um Negev-svæðið þar sem flugskeytin hafa fallið í gær og sagði Olmert þá að mikill munur væri á hernaðarlegri getu Hamas-samtakanna annars vegar og Hizbollah-samtakanna hins vegar.
Sex dagar eru í dag síðan Ísraelar hófu umfangsmikinn lofthernað á Gasasvæðinu en um 400 Palestínumenn hafa látið lífið í loftárásum þeirra.