Verðmæt, ótryggð málverk hafa horfið sporlaust frá breskum sendiráðum og öðrum opinberum byggingum víðsvegar um heiminn. Samkvæmt frétt breska stórblaðsins The Times er andvirði málverkanna tugir milljóna íslenskra króna. Alls er um að ræða um 50 málverk úr listaverkasafni breska ríkisins og eru elstu málverkin frá 17. öld.
Tilkynnt hefur verið um stuld á sumum málverkanna en flest þeirra hafa einfaldlega horfið. Verk eftir Abraham van Beyeren, John Duncan Fergusson og Julius Caesar Ibbetson eru sögð meðal þeirra sem saknað er.