Obama á draugahóteli

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna. Reuters

Nú um helgina flytur Obama-fjölskyldan í sögufrægt hótel í Washington, Hay-Adams hótelið, að því er CNN fréttastofan greinir frá. Um er að ræða eitt af bestu hótelum heims en þar er sagt reimt.

Hótelstarfsmenn segjast hafa heyrt dyr að hótelherbergjum opnast og lokast á óútskýrðan hátt og þeir hafa heyrt konu gráta í herbergi eða stigagangi. Samkvæmt Chicago Times hafa starfsmenn einnig heyrt konurödd spyrja yfirmann hvers hans óski. Konan sem gengur aftur heldur sig aðallega á fjórðu hæð en hennar verður einkum vart í desembermánuði.

Ekki er vitað á hvaða hæð Obama-fjölskyldan mun dvelja til 15. janúar. Venjulega dvelur verðandi forseti ásamt fjölskyldu sinni í öðru sögufrægu húsi í Washington áður en hann flytur inn í Hvíta húsið en það verður ekki laust fyrr en um miðjan mánuðinn.

Obama-fjölskyldan, sem sleikt hefur sólina á Hawaii að undanförnu, kemur fyrr til Washington en venja er. Ástæðan er sögð vera sú að dætur forsetahjónanna þurfi að byrja sem fyrst í nýja skólanum sínum.


  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert