Páfagarður í Róm, sem er smæsta ríki heims, hefur ákveðið að segja sig úr ítölskum lögum. Lögfróðir menn í Páfagarði halda því fram að of mörg ítölsk lög, bæði hvað varða glæpi og mannréttindamál, stangist reglulega á við lögmál kirkjunnar.
Ákvörðunin tók gildi á nýársdag. Benedikt páfi hefur ákveðið að Páfagarður muni ekki lengur taka sjálfvirkt upp þau lög sem eru samþykkt á ítalska þinginu, að því er segir á fréttavef BBC.
Fyrir 80 árum gerðu páfinn, ítalska ríkið og ítalska þingið með sér samkomulag um að ítölsk lög myndu sjálfkrafa taka gildi í Páfagarði.
Nú verður hins vegar farið yfir öll lög, sem eru samþykkt á ítalska þinginu, og í framhaldinu tekin ákvörðun um það hvort lögin muni taka gildi í Páfagarði.