Refsað fyrir að koma upp um spillingu

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Ritstjórum tveggja vinsælla dagblaða í Ho Chi Minh í Víetnam hefur verið sagt upp störfum, nokkrum mánuðum eftir að réttað var yfir fréttamönnum blaðanna fyrir umfjöllun um stórfellda spillingu innan stjórnkerfisins.

Engin ástæða hefur verið gefin fyrir uppsögnunum en bæði blöðin eru rekin af ungliðahreyfingu Kommúnistaflokksins þar í landi og þurfa að sæta ritstjórn af hálfu flokksins og ríkisstjórnarinnar.

Í október voru tveir starfsmenn blaðanna dæmdir fyrir að hafa árin 2005 og 2006 flett ofan af spillingu innan samgönguráðuneytisins. Í ljós kom að yfirmenn vegalagningardeildar notuðu fjármagn, sem var hluti af neyðaraðstoð erlendra ríkja, í að veðja á fótboltaleiki.

Fréttamennirnir voru fundnir sekir um að hafa misnotað lýðræðislegt frelsi sitt til brjóta gegn hagsmunum ríkisins. Dómurinn vakti hörð viðbrögð frá vestrænum ríkisstjórnum, frétta- og mannréttindasamtökum.

Dómurinn og uppsagnir ritstjóranna hafa einnig kallað á hörð viðbrögð frá víetnömskum bloggurum. Margir þeirra skrifa undir dulnefni af ótta við refsingar en í desember voru samþykkt lög þess efnis að bloggarar ættu aðeins að skrifa um persónuleg málefni en ekki stjórnmá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka