George Bush Bandaríkjaforseti, hvatti í fyrsta ávarpi sínu frá því að Ísraelar hófu loftárásir á Gaza-svæðið, til þess að þrýst yrði á Hamas-samtökin að hætta eldflaugárásum á Ísrael svo unnt yrði að koma á vopnahléi á ný.
„Bandaríkin standa nú í samningaviðræðum til að koma á vopnahléi sem verður virt,“ sagði Bush. „Ég hvet til þess að þrýst verði á Hamas til að snúa frá hryðjuverkastarfsemi sinni og til þess að stutt verði við leiðtoga Palestínu í vinnunni að friði.“
Bush sagði að Hamas-samtökin bæru ábyrgð á átökum síðustu daga og hafnaði vopnahléssamkomulagi er myndi gera Hamas kleift að halda áfram skothríð á Ísrael. Bush sagði að loftárásir Ísraela undanfarna daga væru gerðar í sjálfsvörn.
Frá því að Ísrael hóf loftárásir sínar hafa í það minnsta 435 Palestínumenn látið lífið, þar af 66 börn og yfir 2.000 særst. Árásirnar hafa valdið mikilli eyðileggingu og standa íbúar Gaza frammi fyrir mikilli neyð en mestur hluti 1,5 milljóna íbúa svæðisins reiðir sig á matvæla- og nauðsynjaaðstoð erlendra ríkja.