Nýr kafli í hörmulegri sögu

AP

„Þetta er nýr kafli í þessari hörmulegu sögu síðustu daga,“ segir Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar, um innrás ísraelska landhersins inn á Gaza-svæðið. „Það sem við getum fyrst og fremst gert er að koma okkar sjónarmiðum á framfæri við stjórnvöld á svæðinu,“ segir Árni Páll. Hann segir að fylgst verði með framvindu mála á næstunni á metið hvort mögulegt sé að íslensk stjórnvöld geti orðið að liði, til dæmis með aðhlynningarstörfum á vettvangi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur þegar ákveðið að leggja til 12 milljónir króna til hjálparstarfs vegna átakanna á undanförnum dögum.

Ísraelski landherinn réðst skömmu fyrir sjö í kvöld inn á Gaza-svæðið. Landherinn hafði verið í viðbragðsstöðu á landmærunum í um sólarhring áður en hann réðst til atlögu. Samkvæmt fréttum AP-fréttastofunnar er talið að um tíu þúsund ísraelskir hermenn séu við landamærin. Þyrslusveitir fylgdu hermönnum og skriðdrekasveitum inn í landið.

Hörð átök hafa verið á Vesturbakkanum undanfarna viku en samkvæmt nýjustu tölum AFP-fréttastofunnar er talið að um 460 Palestínumenn hafi látist. Þar af eru 75 börn. Árásir á þeim tíma höfðu að mestu verið loftárásir en einnig er að talið að sérsveitir ísraelska hersins hafi stutt við aðgerðir á landi niðri.

Ísraelski herinn hefur haldið uppi hörðum árásum á hendur Palestínumönnum. Forsvarsmenn hersins hafa svarað því til að árásirnar séu liður í því að lama Hamas-hryðjuverkasamtökin. Einkum er nú einblínt á að koma í veg fyrir að flugskeytum sé skotið til Ísraels, samkvæmt fréttum Reuters. Talið að er aðgerðir ísraelska hersins geti staðið yfir í nokkurn tíma að því fram kemur í yfirlýsingu frá Ehud Barak, varnarmálaráðherra Ísraels. „Þetta verður ekki auðvelt,“ segir í yfirlýsingu sem vitnað er til í fréttaskýringu á vefsíðu The New York Times.

Um 5.000 manns hafa safnast saman fyrir framan sendiráð Ísraels í London til þess að mótmæla innrásinni, að því er fram kemur á vefsíðu breska ríkisútvarpsins BBC.

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert