Undirbúningur ísraelska hersins fyrir innrásina á Gaza stóð í átján mánuði, að sögn talsmanns hersins. Undirbúningurinn fór fram í yfirgefinni herstöð í eyðimörk en þar hafði verið reist eftirlíking af Gazaborg. Að minnsta kosti 500 Palestínumenn hafa fallið síðan árásir Ísraelshers á Gaza hófust lok desember, þar af tugir barna. Allt að 3000 hafa særst.
„Hermenn okkar þekkja hvern krók og kima í borginni og vita nákvæmlega hvar skotmörkin eru,“ sagði Avi Benayahou, talsmaður Ísraelshers í samtali við ísraelska sjónvarpið.
„Við byggðum líkan af borginni í Tsehilim herstöðinni í Negev eyðimörkinni, í Suðurhluta Ísraels, og æfðum innrásina í eitt og hálft ár. Okkur hefur orðið mjög ágengt í baráttunni gegn Hamas samtökunum en aðgerðirnar gætu dregist á langinn,“ sagði Benayahou.
Gazaborg er svo gott sem umkringd af tugum þúsunda ísraelskra hermanna. Ástandið þar er skelfilegt. Lítið sem ekkert símasamband er við borgina og hundruð þúsunda manna eru án rafmagns. Spítalar í borginni hafa verið án rafmagns í tvo sólarhringa og treysta á vararafstöðvar sem óttast er að gefi sig. Talið er að hörmungar íbúanna eigi enn eftir að versna en langvarandi skortur hefur verið á matvælum, eldsneyti og lyfjum. Illa gengur að koma neyðaraðstoð til íbúanna.
Þjóðir heims þrýsta nú mjög á um vopnahlé á Gaza. Shimon Peres, forseti Ísraels, sagði í dag að vopnahlé kæmi ekki til greina. Ísraelsmenn ætluðu að veita Hamas samtökunum ráðningu, en ekki stæði til að hernema Gaza á ný.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels hafnaði óskum þjóðarleiðtoga um vopnahlé en Dmitry Medvedev, forseti Rússlands, Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, þrýstu öll á Olmert í dag að gera hlé á aðgerðum ísraelska hersins.